Réttlætingar Ólafs Ragnars

Posted in Meiningar on janúar 7, 2010 by tilvist

Þá er forseti lýðveldisins búinn að halda blaðamannafund til að gera nánari grein fyrir synjun sinni á IceSave-lögunum. Hann hafði samt forgangsröðunina á hreinu og var búinn að sitja fyrir svörum í breskum fréttaskýringaþætti áður en hann ræddi við íslenska blaðamenn.

Eins og ég bjóst því miður við hafði ÓRG fátt markvert að segja en talaði samt sem áður lengi. Aðall þessa fréttamannafundar var sá að forsetinn reyndi að réttlæta ákvörðun sína með ýmsum mislangsóttum skýringum. Aðalatriðið taldi hann það að ný hefði umfjöllunin á alþjóðavettvangi breyst til hins betra og þakkaði hann sjálfum sér það (að sjálfsögðu!). Hann hefur þó tæplega skynjað þá jákvæðni koma frá Jeremy Paxman stjórnanda BBC Newsnight í gærkvöld. Þessi skýring ÓRG stenst enda ekki skoðun (frekar en ýmislegt annað sem hann hefur sagt í þessu máli) því að stór hluti þeirra viðbragða sem komið hafa við ákvörðun hans hafa hreint ekki verið jákvæð. En ef menn vilja viðhafa þá aðferð að handvelja það sem þeim líkar og loka augunum fyrir hinu þá gera þeir það víst. Það hefur ÓRG sannarlega gert. Hann hefur enda farið frjálslega með ýmislegt í þessu máli, t.d. varðandi vilja þjóðarinnar og svo maður tali ekki um fáránlega og algjörlega staðlausa fullyrðingu hans um að meirihluti alþingismanna styðji ákvörðun hans!! 

Það að afleiðing ákvörðunar forsetans hafi þýtt hrun á lánshæfismati ríksins og stöðvun framkvæmda virðist ekki trufla ÓRG. Hann talar á sinn hefðbundna loðmulluhátt um þá möguleika og þann sáttagrundvöll sem hann hafi skapað með ákvörðun sinni. Ég veit ekki með ykkur hin en ég veit ekki síðan hvenær það að senda landsmenn í kosningabaráttu hefur verið leiðin til að sætta þá. Þvert á móti.

Einu hjó ég þó eftir í máli ÓRG. Hann talaði um að kosningin ætti ekki að snúast um forsetann eða ríkisstjórnina og hvort þessum aðilum væri sætt í embættum sínum eftir því hvernig kosningin fer. Nefndi hann í því sambandi dæmi frá evrópusambandsríkjum um að ríkisstjórnir hafi setið áfram þrátt fyrir hafa ekki náð meirihluta atkvæða við málstað sinn í kosningum um einstök máls, s.s. Maastricht- eða Lissabon-sáttmálana. Þetta er allt satt og rétt hjá ÓRG. En er ekki sjóaði pólitíkusinn ÓRG að setja þetta fram til að verja sína eigin stöðu nú þegar raddir heyrast um að hann eigi sjálfur að víkja. Að minnsta kosti les ég það út úr þessum orðum ÓRG að hann sé að lofa landsmönnum því að við sitjum uppi með hann áfram saman hvernig allt fer. Kannski væri rétt að fara að gefa 3. málsgrein, 11. greinar stjórnarskrárinnar meiri gaum?

Auglýsingar

Stafrænar bækur og bóksala

Posted in Meiningar on janúar 3, 2010 by tilvist

Var að hlusta á einn af forsvarsmönnum íslenskra bókaútgefenda lýsa í kvöldfréttum sjónvarpsins áhyggjum sínum af aukningu á sjóræningjaútgáfum af stafrænum bókum á netinu, sem hann sagði að bókaútgefendur um allan heim hefðu vaxandi áhyggjur af (sjá: http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item319314/) Það er vafalaust ekki að ástæðulausu, enda velþekkt hver þróunin hefur verið varðandi ólöglegt niðurhal á tónlist og kvikmyndum. 

Bókaútgáfa hefur í gegnum tíðina ekki verið mikill gróðavegur hér á landi, a.m.k. hafa fá forlög lifað lengi og þeir sem hafa gefið út bækur á eigin kostnað (ég þar með talinn) þakka jafnan fyrir að komast frá útgáfunni á sléttu. Ég hef því að vissu leyti samúð með íslenskum bókaútgefendum, en gegn þeirri samúð vinna þó stærstu útgefendurnir jafnan sjálfir með háttsemi sinni fyrir jólin.

Það er sorglega mótsagnakennt að bera sig illa yfir afkomu útgáfunnar og réttlæta þannig hátt verð á bókum á sama tíma eru nokkrir bókatitlar auglýstir á bestu útsendingartímum sjónvarpsstöðvanna, sleitulaust frá miðjum nóvember og fram til jóla. Hafa útgefendur einhvern tíma opinberað kostnaðinn við það? Auglýsingar á fáeinum bókatitlum eru hver einustu jól svo yfirkeyrðar að flestir eru komnir með ógeð viðkomandi bók löngu fyrir jól vegna sykursætra og vemmilegra auglýsingar. Væri ekki sanngjarnt að krefjast þess að leiðbeinandi verð á bókum frá útgefendum verði framvegis í samræmi við hversu mikið viðkomandi bók verður auglýst. Hefði þá eintakið af ævisögu Vigdísar e.t.v. kostað 50.ooo,- kall út úr búð? Svo dæmi sé tekið (án þess ég hafi svo sem neitt á móti þeirra bók).

Akureyri

Posted in Daglega hliðin on apríl 6, 2009 by tilvist

Opnun kosningaskrifstofunnar Egilsstöðum á laugardaginn tókst framar vonum. Flott mæting og góð stemming. Full ástæða til að vera afar hress með það. 🙂

Er staddur á Akureyri. Búinn að binda lausa enda í vinnu og pólitík og fer bráðum að halda af stað til Ingibjargar. Það eru góðir dagar framundan. 🙂

Annasamir dagar

Posted in Daglega hliðin on apríl 3, 2009 by tilvist

Já, það hefur ansi mikið verið að gera þessa síðustu daga. Margt í gangi í vinnunni og enn meira í aukavinnunni – fyrir þá sem ekki vita er ég kosningastjóri VG á Austurlandi. Á morgun er formleg opnun kosningaskrifstofunnar hérna á Egilsstöðum. Hvet alla til að mæta í Kaupvanginn kl. 16.

Annars byrjaði dagurinn heima á Gilsá. Eftir að hafa slökkt á vekjarklukkunni (snúsað að ég hélt, en við nánari athugun kom í ljós að ég hafði í svefnrofunum slökkt alveg) og dottað í smá stund eftir það, þá var bankað. Það var móðir mín sem er hreint ekki hætt að vaka yfir velferð minni sem og því að ég standi mig. Hún minnti mig á sinn kurteislega hátt á að ég hefði ætlað á fætur fyrir 30 mínútum – sem var alveg rétt til getið. Ég leit á klukkuna sem var 6.30. Eftir að hafa borðað morgunmat, gefið rollunum og stokkið í sturtu var ekið í Egilsstaði til að mæta í vinnuna á skjalasafninu. Þar var ég fram yfir hádegi en sneri mér þá að pólitíkinni og er núna að fara að hypja mig heim (klukkan er að verða 22). Þessi dagur er langur en þó svipaður þeim næstu á undan og eftir eru að koma vinnudagar sem verða líklega enn lengri. En það er annað mál. Það sem mestu skiptir er að ég er á leiðinni til kærustunnar á mánudaginn og ætla að njóta þess út í eitt að eyða með henni páskunum. 🙂

Dagur og Kristur

Posted in Dægurskvaldur on mars 29, 2009 by tilvist

Mig langar að óska Samfylkingarfólki til hamingju með nýjan formann og varaformann.

Já, tími Jóhönnu virðist kominn – þó líklega mun síðar en hún sjálf ætlaði – og geta menn því að mestu hætt að henda gaman að þessari frægu yfirlýsingu Jóhönnu frá því fyrir 15 árum. Ég held þó að allir hljóti að gera sér grein fyrir því að tími Jóhönnu á formannsstóli í Samfylkingunni verður tæpast langur.

Kratarnir áttu um tvo kosti að velja í embætti varaformanns – en fyrirséð er að sá sem yrði kosinn væri afar líklegur til að verða arftaki Jóhönnu sem formaður. Þeir völdu að mínum dómi betri kostinn. Dagur kemur vel fyrir og komst ágætlega frá því að vera borgarstjóri þann stutta tíma sem hann var það – samanburðurinn við þann sem var á undan honum og þann sem kom á eftir er raunar Degi mjög hagstæður (enda hvernig væri annað hægt!). Það mun þó líklega há Degi að eiga ekki sæti á Alþingi. Árni Páll er sjálfsagt ágætismaður, þekki hann ekki. En mig langar að spyrja: Hefur einhver einhvern tíma heyrt hann tala um annað en ESB? Eða öllu heldur kyrja möntruna um endalausa kosti inngöngu Íslands í ESB?

Annars þóttu mér það tíðindi (og skrítið að það skyldi ekki vera fyrsta frétt hjá RÚV í sjónvarpinu í gærkvöld) að Jesús Kristur hefði haldið ræðu á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í gær. Frelsarinn birtist raunar í gervi kunnuglegs manns sem ég var næstum búinn að gleyma – sem betur fer. En frelsarinn var þarna mættur – að eigin sögn. Hann minnti á að enn er ekki of seint að leggja stund á krossfestingar og var það bæði föðurleg og þörf áminning í aðdraganda páska. Orð frelsarans – „Fjallræðan síðari“ – mæltust að því er virtist vel fyrir hjá hinum trúuðu (svo sem við var að búast) nema hvað særingakaflinn fór eitthvað fyrir brjóstið á þeim. En í sælunni yfir öðru úr guðspjallinu gleymdist allt neikvætt strax og hrópað hafði verið halelúja.

Sveitarferð og snjóplógar

Posted in Daglega hliðin on mars 28, 2009 by tilvist

Skellti mér í sveitina í dag. Það var bæði hressandi og ánægjulegt. Töluvert öðruvísi en síðasta heimsókn mín þangað. Þá eyddi ég heimsókninni að mestu liggjandi í rúminu í einhverri þeirri andstyggilegustu magakveisu sem ég hef fengið. Eini kosturinn var að kærastan fékk frið fyrir mér til að kynnast foeldrum mínum. 😉 En í morgun var bjart og fallegt í Breiðdalnum – og raunar á Héraði og Fjörðum líka – og ýmislegt komst í verk heima áður en haldið var aftur í Egilsstaði síðdegis.

Afstaða og staðsetning hluta getur oft verið áhugaverðari en hluturinn sjálfur. Í dag þegar ég keyrði í gegnum Fáskrúðsfjarðargöngin sá ég snjóplóg parkerað í göngunum. Athyglisvert. Skömmu síðar mætti ég öðrum snjóplóg – líka í göngunum. Að því er ég kemst næst hefur fannfergi ekki verið vandamál þar inni. En betra að vera alveg viss. Það var allavega ekki ástæða fyrir vegfarendur að kvarta. Vegurinn í göngunum var algerlega snjó- og hálkulaus. 🙂

Var þetta góð hugmynd?

Posted in Daglega hliðin on mars 19, 2009 by tilvist

Finnst ég vera nokkuð glæponalegur með þetta skegg.

picture-009

Kannski jafn gott að ég rakaði það af mér.